10 leiðir til léttara, skemmtilegra og hreinlegra lífs

heimilisþrif, 10 góð ráð fyrir fjölskylduna, sorptunnutrif.is

1. Færri hlutir, minimaliskur lífsstíll.
Föt – Farðu yfir fataskápinn, flokkaðu í þrennt.

Það sem þú ætlar vissulega að nota, hengdu það upp aftur eða settu til baka í hillur. Komdu þér upp kerfi til að minna fari fyrir og litir séu flokkaðir saman.

Það sem þú hefur ekki notað lengi. Athugaðu hvort vinkonur/vinir vilja koma og taka við þeim flíkum. Ef eitthvað er afgangs, skelltu því í þriðja flokkinn.

Flíkur sem þú munt aldrei nota aftur. Gefðu þær í Rauða Krossinn eða skoðaðu hvort þú getur endurnýtt eitthvað af þeim í annað. T.d. sauma svuntur, sumarkjól á dæturnar úr bolum sem þú nýtir ekki lengur. Nægar eru hugmyndirnar um endurnýtingu á youtube.

2. Settu hlutina á sama stað og losaðu þig við það sem ekki á „heima“.
Nýttu svipaða aðferð og í lið 1 til að flokka dót og „drasl“ á heimilinu. Mundu að allt hefur einhvern tíma haft tilgang í þínu lífi, en sumt hefur ekkert hlutverk lengur. Ekki henda. Flokkaðu og skoðaðu hvort aðrir geti nýtt það sem þú vilt ekki halda eftir. Gefðu annað áfram. Endurnýttu það sem þú getur. Sækja sér skemmtilegar hugmyndir í endurnýtingarhópum á samfélagsmiðlum, nóg af þeim. Settu svo allt á „sinn stað“, pappírar, tölvusnúrur, smáhlutir sem annars finnast ekki í amstri hversdagsins og eru á flækingi um heimilið.

3. Gangið frá jafnóðum.
Kenndu öllum á heimilinu að spara sér sporin og ganga frá jafnóðum. Þegar búið er að nota hlutinn á að setja hann á „sinn stað“. Eitt af því sem sparar lífið er að nota hverja ferð, grípa með sér hluti og ganga frá jafnóðum. Taktu rispu með heimilisfólkinu þar sem þið æfið ykkur í því að „nýta ferðirnar“ og ganga frá.

4. Lítið í einu klárar málið fyrir rest
Sumir vilja þrífa einu sinni í viku. Aðrir hafa ekki tíma eða orku til þess. Þá er hægt að þrífa jafnóðum og lítið í einu. Hægt er t.d. að þurrka af veggnum á bak við eldavélina, sem oft er þakin matarolíu á meðan hellt er upp á te. Hafðu hreingerningarverkfæri á baðherberginu og taktu smáþrif jafnóðum. Sniðugt er að hafa litla „kassa“ með klút, hönskum, skrúbb/bursta/svampi og hreingerningarefni á fleiri en einum stað, svo tækin séu alltaf við höndina. Þá er auðvelt að skrúbba vaskinn um leið og búið er að bursta tennurnar.

5. Einfaldaðu lífið
Hafðu allt í sama eða svipuðum lit, handklæði, sængurfatnað og aðra vefnaðarvöru sem tilheyrir hverju heimili. Þetta einfaldar þvottinn all verulega. Best er að brjóta þvottinn saman jafnóðum og setja á sinn stað um leið og hann er tekinn af snúrunni.

6. Frestunarárátta
Segðu frestunaráráttunni stríð á hendur. Ef þú sérð að skórnir eru í óreiðu í innganginum, gakktu þá í verkð strax og pirringurinn er yfirstaðinn. Kenndu öllum heimilismönnum að vera með í því viðhorfi.

7. Búa um
Svefnherbergið er mun skemmtilegra og meira aðlaðandi ef búið er um um leið og farið er á fætur. Hristu sængina, koddana og leyfðu rúmfötunum að anda aðeins á meðan þú klæðir þig. Legðu svo allt fallega á sinn stað og þegar þú kemur inn í herbergið til að hvíla þig – þá tekur það vel á móti þér.

8. Gjafakassi.
Hafðu kassa á þægilegum stað þar sem þú getur sett hluti, föt og annað, sem þú munt aldrei aftur nota. Ekki setja í geymslu. Hafðu svo samband við vinina þegar kassinn er fullur og skoðið hvort einhver hefur not fyrir hlutina. Ef ekki, gefðu þá hlutina áfram í Rauða Krossinn eða Góða Hirðinn.

9. Flokkunarkerfi.
Komdu þér upp góðu og skilvirku flokkunarkerfi, þar sem þið getið jafnóðum sett flöskur, plast, pappír í tilheyrandi flokka. Í boði eru allskyns kerfi, sem henta litlum og stórum fjölskyldum og svo er alltaf hægt að smíða sér sitt eigið, jafnvel með ílátum sem hafa misst hlutverk sitt á heimilinu.

10. Hafðu gaman
Finnið leið í sameiningu til að hafa virkilega gaman af því að hafa fínt og hreint í umhverfi fjölskyldunnar. Haldið fjölskyldufund og leggið í púkk hugmyndir um hvernig hægt er að þrífa, skipuleggja og halda heimilinu skipulögðu og hreinu – eins og það sé leikur einn þar sem allir hjálpast að.

Scroll to Top